Hvað þýðir lífrænt vottað?
- Kaja
- Apr 11
- 2 min read
Viðhorf almennings til lífrænna matvæla eru æði misjöfn og oft byggð á misskilningi. Margir halda að hinn lífræni lífsstíll gangi út á það að borða baunir og grænmeti, aðrir halda að lífrænt sé sykurlaust og enn aðrir standa í þeirri meiningu að lífrænt sé nýleg tískubylgja sem erfitt sé að tileinka sér.

En út á hvað gengur þá lífrænn lífsstíll ef það eru ekki þessir þættir?
Upphafið að lífrænum lífsstíl má rekja til aldamótanna 1900 sem andsvar við þeim breytingum sem urðu á landbúnaði í kjölfar fyrstu iðnbyltingarinnar. Strax í upphafi hennar sáu nokkrir hugsjónamenn fyrir í hvað stefndi og í framhaldi var búin til umgjörð um gömlu gildin sem í dag kallast lífræn ræktun. Með seinni iðnbyltingunni í kringum 1960 verður lífræn ræktun enn fastmótaðra hugtak því á þeim tíma þurftu margir ræktendur og framleiðendur að velja hvaða leið þeir vildu fara, þ.e. magnframleiðsla eða gamla hefðbunda aðferðin að viðbættum tækninýjungum. Flestir völdu magnframleiðsluna því hún var talin gefa meira af sér fjárhagslega. Í framhaldi hefur sú aðferð orðið „hefðbundin aðferð “ í hugum fólks.
Lífræn ræktun er því engin nýlunda heldur eru þetta aldargamlar aðferðir sem hafa fengið nýtt nafn til að geta aðgreint sig frá þeim breytingum sem hafa átt sér stað síðastliðin 60-70 ár.
En hvaða breytingar eru þetta? Helstu breytingar má rekja til eiturefna- og áburðarnotkunar. Svo ber að nefna GMO eða erfðabreytt matvæli. Eiturefnanotkun í nútíma ræktun felst í notkun á skordýra-, illgresis- og sveppaeitri en þessi efni safnast upp í matvælum og berast í okkur þegar við neytum þeirra. Rannsóknir á þvagi barna og fullorðinna hafa sýnt fram á að leifar af þessum efnum séu til staðar þegar neytt er ólífrænna matvæla. Eitur er engum gott að innbyrða sama hversu litlir skammtarnir eru. En eitrið stoppar ekki hjá okkur því þvagið fer svo í sjóinn þar sem uppsöfnun eiturefna heldur áfram og því er spurningin hversu lengi getur hafið tekið við. Varðandi erfðabreytt matvæli þá er verið að blanda saman ólíkum þáttum, sem dæmi má nefna eiturefnið Round-up sem er innræktað í maís sem veldur því að maísplantan þolir eitrið á meðan aðrar plöntur drepast. Round-up er talið skemma miðtaugakerfið og hafa sumar þjóðir bannað þetta eitur. Reglur um innihaldslýsingu ná ekki yfir erfðabreytt matvæli og fólk hefur því í raun og veru ekki hugmynd um hvað matvaran inniheldur.
Út frá þessum staðreyndum er það nokkuð ljóst að lífrænn lífsstíll felst m.a. í því að lifa í sátt og samlyndi við náttúruna, nýta ekki landið meira en það þolir, stunda sjálfbæra ræktun/skiptiræktun og passa upp á að auðlindir okkar spillist ekki af skammtímagróða-hugsjónum.
Ef þetta er tekið saman þá felur lífræn ræktun m.a. í sér:
Ræktun án eiturefna eins og skordýra-, illgresis- og sveppaeiturs
Ræktun án tilbúins áburðar
Ræktun án erfðabreytinga eða án GMO
Matvæli framleidd án ónáttúrulegra aukaefna
Dýravelferð, m.a. náttúrulegt fóður og án hormóna og sýklalyfja
Veljum lífrænt umhverfinu okkar til heilla.Kveðja, Kaja.
Comments